Verklagsreglur um bestu framkvæmd

Yfirlit yfir verklagsreglur Íslenskra fjárfesta hf. um bestu framkvæmd viðskiptafyrirmæla

1. Almennt

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti(vvl.) og í samræmi við 21. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga(MiFID) ber Íslenskum fjárfestum við framkvæmd viðskiptafyrirmæla að leita allra leiða til að tryggja bestu mögulegu niðurstöðu fyrir viðskiptavini sína, hvort sem um er að ræða framkvæmd fyrirmæla frá viðskiptavinun eða móttöku og miðlun fyrirmæla frá viðskiptavinum.

2. Um bestu framkvæmd viðskiptafyrirmæla

Þættir sem litið er til og vægi þeirra

Með bestu framkvæmd viðskiptafyrirmæla er átt við þá skyldu sem hvílir á Íslenskum fjárfestum hf til þess að tryggja bestu mögulega niðurstöðu fyrir viðskiptavini sína.

Við framkvæmd viðskiptafyrirmæla munu Íslenskir fjárfestar hf leita allra eðlilegra leiða til að ná bestu mögulegu niðurstöðu fyrir viðskiptavini að teknu tilliti til verðs, kostnaðar, hraða, líkinda á því að af viðskiptunum verði, umfangs og eðlis viðskipta og annarra þátta sem máli skipta.

Þegar viðskiptavinur er almennur fjárfestir hefur heildargreiðsla viðskiptavinar almennt mest vægi, þar með talið verð sem fæst í viðskiptunum, og sá viðskiptakostnaður sem af hlýst, bæði þóknanir vegna greiðslujöfnunar og uppgjörs. Það þýðir að aðrir þættir eins og hraði, líkindi á því að af viðskiptum verða og umfang viðskipta, fá einungis meira vægi við framkvæmd viðskiptafyrirmæla þar sem það verður talið veita viðskiptavini betri stöðu.

Verð og kostnaður vega alla jafna þyngst þegar leitað er bestu mögulegu niðurstöðu en þó geta Íslenskir fjárfestar hf ákvarðað að aðrir þættir vegi þyngra með hliðsjón af því hvaða viðskiptavinur á í hlut það er hvernig hann er flokkaður, hvernig fyrirmælum er háttað, um hvaða fjármálagerning er að ræða eða á hvaða markaði viðskiptin fara fram.

 

Framkvæmd viðskiptafyrirmæla

Hafi viðskiptavinur ekki beint til Íslenskra fjárfesta hf ákveðnum fyrirmælum um framkvæmd viðskipta, verða viðskiptafyrirmæli framkvæmd með einhverjum af eftirfarandi háttum og þá jafnvel með samblöndun tveggja eða fleiri þátta:

- með því að senda fyrirmælin þegar í stað til viðeigandi markaðar.

- með því að framkvæma fyrirmælin með nokkrum mismunandi viðskiptum á markaði.

- með því að nýta fyrirmæli eins viðskiptavinar til að mæta fyrirmælum annars á verði sem svarar til markaðsverðs.

- með viðskiptum við þriðja aðila utan markaða.

- þegar Íslenskir fjárfestar hf er ekki aðili að viðkomandi markaði þá með viðskiptum fyrir milligöngu þriðja aðila sem Íslenskir fjárfestar hf hafa gert samning við um að framkvæma viðskiptafyrirmæli fyrir sína hönd á viðkomandi markaði.

 

Besta niðurstaða miðað við aðstæður

Þrátt fyrir að leitað verði allra eðlilegra leiða til þess að ná sem bestri niðurstöðu fyrir viðskiptavini miðað við þau úrræði sem til staðar eru og þær aðstæður sem starfað er við, geta Íslenskir fjárfestar hf ekki tryggt að í hverju tilviki verði alltaf um að ræða bestu niðurstöðu.

Viðskiptavinur mælir fyrir um ákveðna framkvæmd

Þegar viðskiptavinur mælir fyrir um ákveðna framkvæmd viðskipta munu þau vera framkvæmd til samræmis við fyrirmæli viðskiptavinarins. Viðskiptavinur gerir sér grein fyrir því að þegar hann mælir fyrir um ákveðna framkvæmd geta Íslenskir fjárfestar hf ekki og munu ekki gæta að öllum þeim þáttum sem taldir eru í verklagsreglunum til að ná bestu mögulegu niðurstöðu.

3. Markaðir

Það er meginregla að framkvæma ber fyrirmæli viðskiptavina á skipulögðum verðbréfamörkuðum. Íslenskir fjárfestar hf velja þessa leið sem meginreglu þar sem verðlagning verðbréfa á skipulögðum markaði er gagnsæ, hraðinn við afgreiðslu viðskipta mikill, auðvelt að átta sig á kostnaði við að afla viðskipta og líkurnar á því að samingar náist eru almennt miklar. Eini skipulegi verðbréfmarkaðurinn sem Íslenskir fjárfestar hf er aðili að þegar verklagsreglur um bestu framkvæmd viðskiptafyrirmæla taka fyrst gildi er NASDAQ OMX á Íslandi.

Ef hægt er að eiga viðskipti með fjármálagerning á öðrum markaði en NASDAQ OMX á Íslandi getur verið að Íslenskir fjárfestar hf velji annan markað ef þeir telja að að það muni leiða til betri niðurstöðu fyrir viðskiptavin. Þetta á fyrst og fremst við ef meiri viðskipti eru með viðkomandi fjármálagerning á öðrum markaði en NASDAQ OMX á Íslandi og verður þá almennt sá markaður fyrir valinu þar sem mest viðskipti eiga sér stað.

Markaðir þar sem Íslenskir fjárfestar hf geta framkvæmt fyrirmæli er NASDAQ OMX á Íslandi

Við val á markaði fer fram eðlilegt mat á því hvað hentar viðskiptavini best við framkvæmd viðkomandi viðskiptafyrirmæla. Þá er einnig litið til annarra þátta sem kunna að eiga við, svo sem áreiðanleika markaðarins, möguleika á því að afgreiða þar flókna fjármálagerninga, gæða hans og annarra atriða.

Þegar aðeins einn markaður kemur til greina við framkvæmd viðskiptafyrirmæla er litið svo á að Íslenskir fjárfestar hf hafi uppfyllt skyldur sínar samkvæmt reglum þessum og lögum með framkvæmd á þeim markaði.

 

Framkvæmd viðskiptafyrirmæla utan markaða

Þrátt fyrir þá meginreglu sem sett er fram hér á undan kunna Íslenskir fjárfestar hf að meta aðstæður svo að betri niðurstaða fyrir viðskiptavin fáist við framkvæmd viðskiptafyrirmæla utan skipulegra verðbréfamarkaða og markaðstorgs fjármálagerninga. Þetta á sérstaklega við þegar um er að ræða stór viðskipti. Íslenskir fjárfestar hf skulu meta það heildstætt hvort hagfelldara sé að framkvæma viðskiptafyrirmæli utan slíkra markaða eða á þeim.

Samþykki viðskiptavinar, sem fylgir reglum um bestu framkvæmd, gerir ráð fyrir að viðskiptavinur samþykki sérstaklega að Íslenskir fjárfestar hf framkvæmi viðskiptafyrirmæli almennt í samræmi við reglur Íslenskra fjáfesta hf utan skipulegra verðbréfamarkaða og markaðstorgs fjármálagerninga.

Framkvæmd viðskiptafyrirmæla á öðrum mörkuðum

Fái Íslenskir fjárfestar hf viðskiptafyrirmæli varðandi fjármálagerninga sem verslað er með á skipulögðum verðbréfamarkaði sem Íslenskir fjáfestar hf eru ekki aðili að muni þeir framkvæma slík fyrirmæli með því að miðla þeim, á grundvelli samnings þar að lútandi, til milliliða sem eru aðilar að eða hafa aðgang að viðkomandi markaði. Val Íslenskra fjárfesta hf á slíkum milliliðum grundvallast á reglulegu mati á getu þeirra til að framkvæma fyrirmælin vel og gæða og kostnaðar þeirrar þjónustu sem þeir veita.

4. Truflun á markaði

Verði truflun á markaði eða starfsemi Íslenskra fjárfesta hf vegna atvika eins og t.d. rafmagnstruflana og bilana í tölvukerfi getur Íslenskum fjárfestum verið ómögulegt eða það reynst óviðeigandi að framkvæma viðskiptafyrirmæli í samræmi við þá verkferla sem lýst er í reglum þessum. Íslenskir fjárfestar hf munu í slíkum tilvikum, eftir bestu getu, leita allra eðlilegra leiða til að ná bestu mögulegu niðurstöðu fyrir viðskiptavini sína.

5. Meginreglur um framkvæmd viðskiptafyrirmæla

Fyrirmæli viðskiptavina eru að öllu jöfnu framkvæmd án tafar og í þeirri röð sem þau berast, nema aðstæður séu því til fyrirstöðu eða ef talið er að hagstæðara sé fyrir viðskiptavin að fyrirmælin séu framkvæmd á annan hátt.

Íslenskum fjárfestum hf ber að stuðla að því þegar um er að ræða skilyrta pöntun sem ekki er framkvæmd jafnskjótt og hún berst, að birta hana samstundis á viðeigandi markaði svo að hún verði aðgengileg öðrum markaðsaðilum til afgreiðslu nema viðskiptavinur mæli fyrir um annað. Með undirritun sinni á samþykki það sem fylgir hér með telst viðskiptavinur hafa samþykkt að Íslenskir fjárfestar meti hvort og hvenær birta eigi slíkar pantanir.

6. Upplýsingaskylda

Íslenskir fjárfestar hf skulu að beiðni viðskiptavinar geta sýnt fram á að fyrirmæli hans hafi verið framkvæmd í samræmi við verklagsreglur fyrirtækisins um bestu framkvæmd viðskiptafyrirmæla. Íslenskir fjárfestar hf skulu tryggja að reglulegt eftirlit sé fyrir hendi með framkvæmd verklagsreglnanna og þess gætt að þeim sé fylgt í framkvæmd.

Komi til efnislegra breytinga á verklagsreglunum munu Íslenskir fjárfestar hf upplýsa viðskiptavini sína um það.