Starfsreglur stjórnar Íslenskra fjárfesta hf.

1. Tilgangur

1.1. Reglur þessar, skv. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eru settar í þeim tilgangi að efla trúverðugleika Íslenskra fjárfesta hf. (félagið), með því að staðreyna að eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir séu viðhafðir í starfsemi félagsins.

2. Kjör stjórnar, verkskipting og störf

 • 2.1. Stjórn skal kjörin á árlegum aðalfundi félagsins til eins árs í senn. Kosnir skulu þrír menn og þrír til vara.
 • 2.2. Þegar að loknum aðalfundi skal nýkjörin stjórn félagsins koma saman og skipta með sér verkum.
 • 2.3. Formaður stjórnar stýrir fyrsta fundi hafi hann verið kjörinn sérstaklega en ella fráfarandi formaður hafi hann verið endurkjörinn en ella sá stjórnarmaður sem hefur lengsta stjórnarsetu að baki. Hafi enginn stjórnarmaður átt sæti í stjórn félagsins áður stýrir aldursforseti fyrsta fundi.
 • 2.4. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður kosningu í stöður stjórnar skv. 13. gr. samþykkta félagsins.
 • 2.5. Ef fleiri en einn fá jafnmörg atkvæði skal hlutkesti ráða.

 

3. Fundir, boðun og fundargerðir

 • 3.1. Formaður boðar til stjórnarfunda með sannanlegum hætti og leggur fram dagskrá hvers fundar, eigi síðar en tveimur dögum fyrir fund.
 • 3.2. Formanni er skylt að boða til fundar ef einhver stjórnarmanna eða framkvæmdastjóri krefst þess.
 • 3.3. Formaður stýrir fundum og ber ábyrgð á að fundargerðarbók sé færð. Sérhver stjórnarmaður getur krafist bókunar. Endanleg fundargerð skal liggja fyrir til samþykktar í upphafi næsta stjórnarfundar.

 

4. Lögmæti ákvarðana

 • 4.1. Stjórn félagsins stýrir öllum málefnum félagsins milli hluthafafunda og gætir hagsmuna þess í hvívetna.
 • 4.2. Stjórn skal virða ákvæði laga um fjármálafyrirtæki, sér í lagi reglur um bankaleynd. Ennfremur skal hver stjórnarmaður kynna sér og virða starfs- og verklagsreglur félagsins.
 • 4.3. Stjórnarfundur eru lögmætir ef tveir stjórnarmenn sækja fund.
 • 4.4. Undirskrift tveggja stjórnarmanna skuldbindur félagið.
 • 4.5. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður niðurstöðu allra mála. Séu atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns.

 

5. Ráðning og störf framkvæmdastjóra

 • 5.1. Stjórn skal ráða framkvæmdastjóra og ákveða starfskjör hans. Hún veitir og prókúruumboð fyrir félagið.
 • 5.2. Framkvæmdastjóri hefur með höndum stjórn á daglegum rekstri félagsins og kemur fram fyrir þess hönd í öllum málum sem varða daglegan rekstur þess. Framkvæmdastjóri sér um reikningshald og ráðningu starfsliðs.
 • 5.3. Framkvæmdastjóri skal veita stjórnarmönnum, endurskoðendum og skoðunarmönnum allar upplýsingar um rekstur félagsins sem þeir kunna að óska og veita ber samkvæmt lögum.

 

6. Endurskoðendur

 • 6.1. Stjórn er skylt að veita endurskoðendum eða skoðunarmönnum skv. 19. gr. samþykkta félagsins, aðgang að öllum eignum, bókum, fylgiskjölum og öðrum gögnum félagsins. Stjórn skal jafnframt veita allar upplýsingar sem það getur látið í té og farið er fram á af endurskoðendum eða skoðunarmönnum.
 • 6.2. Kjörnir endurskoðendur skulu skrá hvernig þeir vinna sína endurskoðunarvinnu og annað sem máli skiptir.
 • 6.3. Endurskoðendur skulu sérstaklega gefa því gaum hvort ársreikningur félagsins og fylgiskjöl hans eru í samræmi við lög, reglur, samþykktir og góða reikningsskilavenju og benda stjórn á hvort svo sé.

 

7. Hagsmunatengsl

 • 7.1. Einstakir stjórnarmenn skulu upplýsa stjórn um þá aðila sem tengjast þeim hagsmunatengslum, hvort sem er tengsl eru persónuleg eða fjárhagsleg. Hjá félaginu skulu ávallt liggja fyrir uppfærðar, skriflegar upplýsingar um þá aðila sem tengjast stjórnarmönnum. Upplýsingar skv. þessari grein skulu vera aðgengilegar á stjórnarfundum.
 • 7.2. Stjórnarmönnum er óheimil þátttaka í meðferð mála er varða: a) viðskipti þeirra sjálfra b) viðskipti fyrirtækja sem þeir eiga beinan eða óbeinan eignarhlut í, sitja í stjórn hjá, eru fyrirsvarsmenn fyrir eða eiga verulegra hagsmuna að gæta í c) aðila sem teljast venslaðir þeim með öðrum hætti d) samkeppnisaðila stjórnarmanna eða aðila þeim tengdum
 • 7.3. Teljist stjórnarmaður hafa hagsmunatengsl skv. þessari grein eða vanhæfur vegna annarra atvika, skal hann ekki fá aðgang að gögnum er varða afgreiðslu viðkomandi máls. Stjórnarmaður skal þá víkja af fundi við umræður og afgreiðslu málsins.
 • 7.4. Formaður eða framkvæmdastjóri geta krafist þess að stjórnarmaður víki sæti áður en efni máls er kynnt og gögn afhent telji þeir stjórnarmann vanhæfan til meðferðar máls.
 • 7.5. Stjórn tekur ákvörðun um hæfi stjórnarmanna skv. ákvæðum laga um hlutafélög nr. 2/1995 7.6. Bóka skal í fundargerð að stjórnarmaður hafi vikið sæti og ekki fengið aðgang að gögnum.

 

8. Ákvarðanataka um einstök viðskipti

 • 8.1. Stjórn félagsins er óheimil þátttaka í ákvörðunum um einstök viðskipti, nema umfang þeirra sé verulegt miðað við stærð fyrirtækisins.
 • 8.2. Einstakir stjórnarmenn skulu ekki hafa afskipti af ákvörðunum um einstök viðskipti.

 

9. Upplýsingagjöf til stjórnar

 • 9.1. Upplýsingagjöf til stjórnarmanna um viðskiptavini og einstök viðskipti skal eingöngu fara fram í gegnum stjórn félagsins. Svör við fyrirspurnum skulu ávallt kynnt á fundum stjórnar en ekki einungis fyrir þeim stjórnarmanni sem bar upp fyrirspurnina. Fyrirspurnir og svör skulu bókuð í fundargerð.
 • 9.2. Stjórnarmönnum er óheimilt að hafa beint samband við starfsmenn til upplýsingaöflunar.

 

 

10. Fyrirgreiðslur til venslaðra aðila

 • 10.1. Stjórn skal leggja fyrir endurskoðendur eða skoðunarmenn félagsins að fara með reglubundnum hætti yfir fyrirgreiðslur til venslaðra aðila, m.a. með tilliti til kjara, endursamninga og stöðu og bera saman við sambærileg viðskipti annarra viðskiptavina og gefa rökstutt álit.
 • 10.2. Með fyrirgreiðslu er átt við lánveitingar og veittar ábyrgðir til venslaðra aðila, svo og aðrar skuldbindingar venslaðra aðila gagnvart viðkomandi fjármálafyrirtæki, svo sem sölutryggingar og framvirka samninga. Ekki er eingöngu átt við veittar fyrirgreiðslur á tímabilinu, heldur einnig meðferð á skuldbindingum sem þegar hefur verið stofnað til, svo sem vegna vanskila, breytinga á skilmálum og tryggingum, skuldbreytingum o.fl. þess háttar.
 • 10.3. Venslaðir aðilar teljst þeir sem hafa þannig tengsl við félagið að fyrirgreiðsla til þeirra eða fyrirtækja þeim tengdum kann að vera tortryggileg vegna hagsmunaárekstra.
 • 10.4. Til venslaðra aðila geta t.d. talist: a) aðal- og varamenn í stjórn féagsins, dótturfélaga og tengdra félaga, stjórnendur, lykilstarfsmenn og makar, börn og foreldrar þessara aðila. b) hluthafar sem eiga með beinum eða óbeinum hætti 5% eignarhlut eða stærri í félaginu eða teljast til eins af tíu stærstu hluthöfum þess. c) fyrirtæki sem aðilar skv. a. og b. lið eiga að minnsta kosti 10% hlut í, starfa hjá eða gegna stjórnarstöðum fyrir.

 

11. Meðferð viðskiptaerinda stjórnarmanna

 • 11.1. Öll viðskiptaerindi stjórnarmanna eða aðila sem þeim tengjast skulu lögð fyrir stjórn fyrirtækisins, eða formann stjórnar til samþykktar eða synjunar.

 

12. Seta í stjórnum dótturfélaga og hlutdeildarfélaga

 • 12.1. Telji stjórn rétt að stjórnarmaður taki sæti í stjórn dóttur- eða hlutdeildarfélags skal við slíka ákvörðun fjalla ítarlega um áhrif stjórnsetunnar á eftirlitshlutverk viðkomandi stjórnarmanns og um nauðsyn þess að hann taki sæti í þeirri stjórn.

 

Reykjavík, 15. ágúst 2007.